Flýtilyklar
Leit
Samhentir kaupa rekstur Kassagerðar Reykjavíkur
Samhentir Kassagerð hf. hefur komist að samkomulagi við Kassagerðar Reykjavíkur ehf. um kaup á lager og viðskiptasamböndum félagsins. Sameinaður rekstur verður rekinn undir merkjum Samhentra.
Erfitt rekstrarumhverfi og markaðsaðstæður gera það að verkum að óhjákvæmilegt var fyrir félögin að fara þessa leið til að tryggja áframhaldandi starfsemi. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þar til niðurstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir verða félögin rekin með óbreyttu sniði og ekki eiga að verða hnökrar á þjónustu við viðskiptavini.
Samhentir Kassagerð var stofnað árið 1996 og er þjónustufyrirtæki sem býður alhliða lausnir í umbúðum og öðrum rekstrarvörum. Félagið selur umbúðir og veitir ráðgjöf um lausnir, efnisval, hönnun og tækjakost. Viðskiptavinir félagsins starfa m.a. í matvælaframleiðslu, sjávarútvegi og iðnfyrirtæki í margs konar framleiðslu.
Kassagerð Reykjavíkur er elsta umbúðafyrirtæki á Íslandi og var stofnað árið 1932.
Fjármálaráðgjöf Deloitte hafði umsjón með ferlinu.
Kristján Geir Gunnarsson, Kassagerð Reykjavíkur: „Gríðarlega krefjandi rekstarumhverfi gerir þessa aðgerð nauðsynlega, ég vonast til þess að við þessi kaup náist fram hagkvæmni til að takast á við þær áskoranir sem flest fyrirtæki hér á landi eru að eiga við. Ég óska eigendum Samhentra góðs gengis í næstu skrefum.“
Jóhann Oddgeirsson, framkvæmdastjóri Samhentra: „Kassagerð Reykjavíkur er eitt elsta fyrirtæki landsins og á það sér ríka sögu. Við tökum auðmjúk við keflinu með þeim og vitum að hjá Kassagerðinni starfar ötull hópur fólks með sérþekkingu sem við bjóðum velkomna í hóp okkar. Við teljum það mjög mikilvægt að veita viðskiptavinum Kassagerðarinnar áfram góða þjónustu og munum gera allt í okkar valdi að tryggja að þessi umskipti gangi vel fyrir sig.“